Tilraunasíða Rúnars
mánudagur, nóvember 29, 2004
 
Íslenskt lambakjöt er gómsætt.

Las á blogginu hans Gunna Freys í síðustu viku að einhver Queen eftirlíking væri komin til landsins og hafði spilað í Ísland í bítíð um morguninn. Gunni átti ekki til orð yfir þessum ósköpum svo ég varð að kíkja á og hlusta og þvílík hörmung. Ég er nú ekki mikill Queen aðdáandi en þetta var ömurlegt. Það er líka skondið hvað svona eftirhermuhljómsveitir sem koma til Íslands eru gerðar merkilegar í auglýsingum. Einar Bárðarson "áróðursmeistari" flutti inn Die Herren fyrir ári síðan, Die Herren er danskt U2 coverband. Í auglýsingum sem ég sá var talað um besta U2 cover band í heiminum. Ég er mikill U2 aðdáandi og var drullusvekktur að fá ekki að sjá þetta band. Þeir komu svo til Árósa í vor og ég skellti mér og vonbrigðin voru mikil. Þeir voru skítsæmilegir. Á Íslandi er til mikið betra U2 cover band sem kallar sig einfaldlega U2 project. Þar er allur hljóðfæraleikur mikið betri og rödd Rúnars eru mikið nær rödd Bonos en rödd Monos í Die Herren. Það er samt merkilegt að þegar U2 project treður upp á Íslandi þá mæta sárafáir en "áróðursmeistarinn" nær að fylla kofana þegar Die Herren koma.
Eitt lagið sem þetta Queen líki tók var Don't stop me og í fyrsta orði söngvarans langaði mig að slökkva. Þetta er eitt af mínum uppáhalds Queen lögum og þar á gleðisveitin Pláhnetan mikinn þátt, þetta lag var á þeirra prógrammi og flutningur þeirra og söngur Stebba Hilmars toppaði jafnvel Freddy sjálfan. Allavega á þetta hollenska band ekki sjéns.

Veljum íslenskt.
 
þriðjudagur, nóvember 23, 2004
 
Danir eru besta fólk, það er samt ýmislegt í fari þeirra sem fer í pirrunar á manni. Eflaust er margt sem pirrar Dani sem eru á Íslandi.

Danir reykja svo að segja hvar sem er, það er fátt eins pirrandi og að koma inn í klefa þegar maður er búinn að dæma og leikmenn eru komnir í smók inni í klefanum. Já við dómarar þurfum oft að deila klefum með leikmönnum. En merkilegur ósiður að reykja inni í klefanum, sök sér þó menn séu komnir í ölið.

Annað eru hundarnir. Þeir eru inn um allt. Í skólaferðalagi sem ég fór í í fyrra og við gistum í einhverju húsi úti í sveit, þar var stelpa með sem eldaði ofan í okkur. Hún var með hundinn sinn með og ég held að hann hafi haft jafnmikið með eldamennskuna að segja og hún, kannski hann hafi vaskað upp.
Svo var ég í Salling um daginn, þetta er risastór búð á mörgum hæðum sem selur allan fjandann. Frekar snyrtileg búð og við innganginn þar sem ég stóð er snyrtivörudeildin. Kemur ekki einhver labbandi inn með folald með sér, ok kannski ekki folald en hund á stærð við folald. Ég hefði ekki viljað vera smábarn og mæta þessum hundi inni í leikfangadeildinni.

Það er svo eitt sem maður hefur tekið eftir þegar maður býr í öðru landi, það eru allir hátíðisdagarnir og frídagarnir sem enginn veit hvaða merkingu hafa. St. Bededag, Morten bishopsdag o.s.frv. Ég er nú svo forvitinn að ég er búinn að komast að því hvað þessir tveir dagar merkja sem ég nefndi. Fyrr á öldum var konungur í Danmörku sem fannst vera orðið full mikið af frídögum svo hann skipaði svo fyrir að slatti af þeim yrði bara settur í einn dag og það er St. Bededag. Morten bishopsdag heitir í höfðuðið á einhverjum Morteni sem vildi ekki verða biskup svo hann faldi sig á meðal andanna sinna. Þær kjöftuðu frá og hann var kosinn biskup. Þess vegna borða allir endur í tilefni dagsins.
En eru kannski svona dagar á Íslandi líka, þ.e. dagar sem fólk veit ekkert afhverju eru. Ég er búinn að komast að því að það er svo. T.d. Þorláksmessa, veit fólk afhverju hún er? Er hún bara svo búðirnar séu opnar lengur síðasta dag fyrir jól og fólk hópist í bæinn? Það var einhver sem hélt það. Veit fólk að það er til Þorláksmessa á sumri? Hið rétta er að annar dagurinn er fæðingardagur Þorláks helga og hinn er dánardagur, ég man ekki hvor.

Svo eru það heiti á hinu og þessu, t.d. {, hornklofi heitir þetta á íslensku, Danirnir kalla þetta Tuborg!! Já þið lásuð rétt, Tuborg. Eftir að hafa spáð í það í hálft ár hvað þeir kölluðu þetta fór ég að spyrja og þá var mér kennt þetta. Ég sagði nú bara, afhverju? Það var fátt um svör, en jú þetta líktist eitthvað Tuborg. Ég leitaði í annað hálft ár að einhverju í Tuborg ölinu sem líktist hornklofa en fann ekkert. Ég fór því að spyrja frekar, þá líkist þetta einhverju sem var á öllum Tuborgbílum í gamla daga!! Þar hafið þið það.

En eins og menn vita þá er ég ekki mikill handboltaunnandi, allavega ekki í orði. Sem íþróttaunnandi og Íslendingur er þó ekki hægt annað en að fylgjast aðeins með. Íslenska landsliðið var að spila í Svíþjóð í síðustu viku og stóð sig vel. Þar fór Róbert nokkur Gunnarsson hamförum og vakti mikla eftirtekt. Þetta kemur þó Árósabúum ekkert á óvart, Róbert hefur farið á kostum með Århus GF í vetur og lék einnig mjög vel í fyrra. Hann er markahæstur í dönsku deildinni og skorar sjaldnast undir 10 mörkum í leikjum og liðið er á toppnum eins og er. Gæti reyndar tapað einhverjum stigum útaf fáránlegum málaferlum. En það er mikið skrifað um Róbert í Áróskum dagblöðum. Hann er í miklu uppáhaldi, ekki síst fyrir þær sakir að hann kom upphaflega til Árósa með konu sinni sem var á leið í nám. Hann langaði að spila handbolta og kom á æfingu og spurði hvort hann mætti vera með. Þeir gáfu honum sjéns og það vita flestir framhaldið. Um daginn skrifaði eitt dagblaðið að Århus GF ætti að ráða sérstaka dyraverði á leiki sína sem sjá um að meina umboðsmönnum og erlendum þjálfurum aðgang að leikjum þeirra svo þeir missi ekki Róbert.
En Róbert er ekki eini Íslendingurinn sem er að standa sig vel í Árósum, Hrafnhildur Skúladóttir spilar með SK Århus í kvennahandboltanum og Helgi Sigurðsson er með AGF í fótboltanum. Það er alls ekki óalgengt að sjá myndir af einhverju þeirra forsíðu t.d. JP Århus og alltaf fyllist maður stolti.
Dönunum finnst líka merkilegt hversu oft ég get bent þeim á Íslendinga hingað og þangað um heiminn sem vekja athygli. Þeir tala oft um að það geti ekki nokkur hræða verið eftir upp á Íslandi. Þeim finnst íslenska líka skrýtið tungumál og hlægja hástöfum þegar þeir reyna að lesa þetta ágæta blogg.
Það er líka merkilegt hvað þeir halda alltaf að það kosti mikið að ferðast til Íslands, fastir í þessum 100 þús kalli sem kostar að komast til Grænlands, en þegar maður segir þeim frá því að þeir geti fengið fram og tilbaka miða á ca 15 þús þá liggur við að þeir stökkvi upp til handa og fóta og panti miða. Þeir hafa jú flestir mikinn áhuga á að komast í Bláa lónið sem allir virðast vita um.
 
mánudagur, nóvember 15, 2004
 
Niels Henrik David Bohr, segir það fólki eitthvað? Eða bara Niels Bohr. Þessi danski vísindamaður fékk Nóbelsverðlaun fyrir skilgreiningu á atómum árið 1922. Þegar ég flutti til Danmerkur hafði ég heyrt þennan mann nefndan, en hann var ekki merkilegri en hver annar fyrir mér. Einstein er annar tappi sem ég hafði heyrt mikið um og hafði uppgötvað marga merkilega hluti. Á mínu fyrsta ári í skóla hér í DK þurfti ég að læra danska filosofi og þar var mikið fjallað um rökræður Bohr og Einsteins og öll kennslan gekk út á það að Bohr væri mikið merkilegri maður en Einstein. Ég og Robert Ástrali sem er með mér í bekk hlægjum alltaf jafn mikið að þessu.
Kannski er þetta svona með Halldór Laxnes, vita örugglega fáir utan Íslands hver hann er þó hann hafi fengið Nóbel verðlaun um árið.

Var annars að dæma hörkuleik í gær þar sem annað liðið mætti með klístrið í handboltaskónum og hitt kom til að spila körfubolta. Ok smá ýkt með klístrið og handboltaskóna, en þeir spiluðu handbolta en ekki körfubolta og skildu ekkert í því afhverju þeir fengu á sig 33 villur en heimaliðið 18. Þetta var lið frá 101 Kaupmannahöfn sem var mætt þarna og greinilegt að þeir voru komnir út í sveit. Héldu greinilega að það væri ekki búningsherbergi í íþróttahúsum út á landi, skiptum föt bara í salnum. Svo var karfan skökk og allt voðalega slæmt.
Einn úr heimaliðinu kom svo til mín eftir leik skellihlægjandi og sagði: "Runar, de kallede dig Jydehat og du er slet ikke fra Jylland!" (á ísl: Rúnar, þeir kölluðu þig Jótavarg og þú ert alls ekki frá Jótlandi). Mér fannst þetta frekar skondið, sérstaklega hvað Dananum þótti það fyndið að ég væri kallaður Jydehat. Á íslensku er það svipað og að vera kallaður sveitavargur, sem ég jú er!

Ég hitti Geoff Kotila þjálfar Bakken bears á laugardaginn, hann sagðist vera á leið til Íslands og kick some asses. Ég segi bara held og lykke med det Geoff.

Svo er það nú stórfréttin, Íslendingar búnir að kaupa Magasín og hóta að loka búllunni í Árósum. Ég hef nú ekki oft komið þarna inn, rándýr búð en selur besta ísinn í Árósum að flestra mati. En gaman að fylgjast með íslenskri innrás til Danmerkur, KBbanki á svo FIH bank sem eru með útibú hér í Árósum. Reyndar bara fyrirtækjabanki svo ég get ekki flutt viðskipti mín þangað.
Held samt að íslenskir bankar ættu að kenna dönskum bönkum að það er hægt að treysta fólki fyrir Dankorti. Víðast í Danmörku er aðeins hægt að borga með seðlum eða Dankorti, vandamálið er að það er andskotanum erfiðara fyrir útlendinga að fá Dankort. Maður þarf að sýna fram á veltu í marga mánuði áður, maður getur fengið Hævekort sem er kort sem maður getur notað í hraðbönkum og bara hraðbönkum þess banka sem maður er í viðskiptum við.
Getur verið pirrandi en maður venst þessu jú eins og mörgu öðru.

Svo er spurning hvort einhver Íslendingur vill ekki kaupa LEGO, það gengur frekar illa á þeim bænum og fólki sagt upp í hundruðatali. Það er bara synd ef LEGO hættir að vera til. Reyndar fannst mér meira gaman að LEGO í gamla daga þegar þetta voru bara ca 10 tegundir af kubbum og maður notaði ímyndunaraflið til að skapa, nú fá börnin allt tilbúið, bara að smella efribúk og neðribúk á einhverjum karli saman og þá er allt klárt.
Heimur versnandi fer.


 
miðvikudagur, nóvember 10, 2004
 
Þar sem maður er alltaf að skrifa upp fréttir úr dönskum blöðum, þá heldur maður því bara áfram.

Í gær var verið að skrifa um að bókasafn lögfræðinema hér í Århus hafi verið að eyða helling af peningum í að leggja einhverjar mottur á gólfið. Það er svo mikið af stelpum í náminu og eins og allir vita þá þurfa lögfræðinga að vera vel til fara og hjá konum heitir það að vera vel til fara að vera í háhæluðum skóm. Það er háhæluðu skórnir sem valda því að það þarf að leggja motturnar því það er steingólf fyrir og þegar lögfræðipæjurnar birtast á bókasafninu þá er svo mikill hávaði að aðrir nemendur geta ekki einbeitt sér!!

Lögfræðinemabókasafnið í Kaupmannahöfn telur sig þó hafa annað með peningana að gera.

Dönsku meistararnir í körfu eru að taka þátt í Evrópukeppninni í fyrsta skipti, þeir eru búnir að fara til Portúgals og Frakklands og spila, fara svo til Íslands í næstu viku. Ég er orðinn svakalega þreyttur á viðtölum við þá, öll þeirra svör eru: "Við förum og gerum okkar besta, reiknum ekki með sigri, þetta er jú í fyrsta skipti sem við tökum þátt". Bullshit, hver fer í leik til þess að tapa? Kannski Danir, það má jú enginn vera betri en annar í Danmörku, allir jafnir. Danir eru samt bestu skinn. Bakken bears sömdu á dögunum við Chris Christoffersen, risastóran Dana frá Borgundarhólmi (kannski afkomandi íslensk glæpamanns). Gaurinn hefur leikið í útlöndum allan sinn feril og er að leita að liði. Bakken samdi við hann til jóla! Þá er Evrópukeppnin búin og hann búinn að sýna sig og hann vonast til að vera kominn með tilboð annarsstaðar frá þá. Gott að byggja liðið upp svona fyrir meistarabaráttuna í vor. Reyndar virðast allir danskir atvinnumenn á leið heim til Danmerkur. Nicolai Iversen sem samdi við lið á Mallorca í sumar er á leið heim, Peter Johansen sem ætlaði sér stóra hluti í Evrópu er kominn til Team Sjælland og spilar þar með Kevin Grandberg. Christian Drejer og Michael Dahl Anderson eru þó enn hjá sínum liðum og Chris Coleman eða hvað hann heitir sá með svakalega mikla hárið.

Ég fór að hugsa um það áðan þegar ég las íslensku blöðin og fullt af mönnum að hætta í hinum og þessum störfum vegna tengsla sinna við Olíumafíuna. Skyldu þeir hafa haft samráð um að hætta allir í dag? Bregðast allir eins við.

Þessi olíuumræða vekur líka spurningar um stöðu míns ástkæra Penna, er þeirra staða á markaðnum ekki svolítið ógnvænleg? Ef við tökum ritföng þá eru þeir með Pennabúðirnar, Eymundsson selur ritföng stundum, Griffill og Mál og Menning. Office 1 er að sprikla á móti, hverjir aðrir? Penninn selur jú flest öll ritföng í Kaupásbúðirnar og Hagkaupsbúðirnar. Þarna er maður jú að tala um eitt fyrirtæki sem stjórnar öllu, ekki þrjú sem þurfa að hafa samráð.
Líka merkilegt að stjórnarformaður Pennans er nefndur af og til í skýrslu Samkeppnisstofnunar um Olíumafíuna. Hann er líka tengdur stjórnarformanni Símans.
Þetta er allt ein mafía.
Nú fæ ég aldrei vinnu í Pennanum aftur.
 
mánudagur, nóvember 08, 2004
 
Maður er orðinn steiktur þegar maður er að horfa á sjónvarp og les textann til að skilja hvað er í gangi, svo byrjar fólkið að tala íslensku og ég les textann áfram. Þetta gerðist þegar ég var að horfa á Ørnen í gær. Þeir þættir eru ekkert að klikka, maður bíður spenntur eftir næsta.

Ég las í blöðum hér í DK um daginn að 57% af þeim sem koma frá fátækum löndum til að taka þátt í hinum ýmsu knattspyrnumótum í Danmörku á sumrin nýta ekki flugmiðann til baka, þeir bara hverfa. Þetta er fólk frá Ghana, Usbekistan, Albaníu og fleiri löndum. Það voru víst yfir 250 sem komu í sumar og semsagt 57% hurfu bara. Einhverjir hafa dúkkað upp hingað og þangað um Evrópu og sótt um landvistarleyfi, en Danirnir eru ekki ánægðir með að vera misnotaðir.
Þetta minnir mig á umræðu um Rey Cup í sumar, einhver afrísk lið fengu ekki vegabréfsáritun og minnir mig að Hörður Hilmarsson hafi verið að hneykslast á þessu. Ég skil þetta vel í dag þó það sé kannski erfiðara að hverfa á Íslandi.
Heyrði líka sögu af handboltaliði frá Sri Lanka sem kom til að keppa í Þýskalandi og hvarf svo. Menn fóru eitthvað að grennslast fyrir um þetta og hringdu til Sri Lanka, þar kannaðist enginn við að nokkur kynni að spila handbolta í landinu. Þjóðverjunum hafði jú fundist gestirnir frekar daprir á vellinum.

Í tengslum við þetta var verið að gera rasíu í vegabréfsáritnum til Danmerkur. Sendiráð Dana víðsvegar um heiminn hafa víst verið að gefa allskonar fólki vegabréfsáritanir til Danmerkur og þar hverfur fólkið. Einhver starfsmaður í Póllandi gaf fullt af fólki áritun án þess að kanna hvort fólkinu hafi verið hafnað af öðrum þjóðum, séu eftirlýstir glæpamenn eða yfirleitt hvort umsóknin passar við fólkið sem fær áritnuna. Þetta var víst vegna þess að konan kunni ekkert á tölvur, hún vinnur nú á skrifstofu í Kaupmannahöfn. Held að það hafi örugglega verið hún sem gaf 12 vændiskonum áritun sem vörubílstjórum!

Ég uppgötvaði í nótt að ég er búinn að fylgjast of náið með þessu olíufélagamáli á Íslandi. Í alla nótt var ég að rannsaka málið, áttaði mig samt ekki á því hvort ég var lögga eða blaðamaður. Annars er þetta leiðindamál, fjölmiðlar keppast við að hálshöggva Þórólf Árnason. Held að menn ættu að einbeita sér að höfuðpaurunum. Samt eitt sem maður verður að hafa í huga, enginn er sekur uns sekt er sönnuð. Olíugreifarnir vilja meina að skýrslan sé ekki rétt í öllum atriðum. Hvað veit maður. Íslenskir dómstolar hafa nú ekki alltaf farið með rétt mál, samanber Geirfinnsmálið, hver veit hvað er satt í því?
Ég sá að ESSO ætlar að slíta öllu samstarfi við önnu félög, verður spennandi að sjá hvað verður um bensínið í Varmahlíð. Þar var alltaf talað um að þetta væri Kaupfélagsstöð sem keypti bara vörur af ESSO og svo seinna SHELL. Ég var jú að vinna þarna þegar SHELL kom inn, kannski er ég sekur um samráð.
En viðtal sem Þórólfur fór í á Stöð 2 var svakalegt, Jóhanna Vilhjálmsdóttir var gjörsamlega búin að ákveða að vera versti óvinur Þórólfs og bara að drulla yfir hann. Þetta fór þó þannig að hún kom svo illa út að Þórólfur fékk fína kosningu í könnuninni sem var í gangi, þökk sé Jóhönnu. Leiðinlegt þegar fólk er bara með 5 spurningar og spyr þeirra í sífellu og hleypir aldrei viðmælandanum að. Það heitir ekki viðtal, það heitir eintal. En hún er víst að hætta og fara til Köben, hún fellur örugglega vel inní hópinn á Sjálandi.

Það er ekki oft sem ég hlusta á útvarp í Danmörku, fór að dæma um daginn í Lemvig og er það um tveggja tíma akstur. Það var kveikt á útvarpinu á leiðinni og þá heyrði ég auglýsingu sem vakti athygli mína. Ætla að reyna að skrifa hana upp eins og ég man hana.
Ungur strákur les það sem hann er að slá inn á lyklaborð, er greinilega á MSN.
S1:Hæ ég heiti Jens, hvað heitir þú?
Annar strákur svarar honum.
S2:Hæ ég heiti Claus, finnst þér gaman að spila tölvuleiki.
S1:Já það finnst mér, eigum við að spila yfir netið?
S2:Já kannski, en ég á miklu skemmtilegri leiki hérna heima hjá mér... (meðan síðasta setningin er lesin þá breytist röddin í fullorðinn karlamann).
Þessi auglýsing náði til mín.
 
Hér tjái ég mig þegar ég hef eitthvað að segja og kraft í að skrifa það

ARCHIVES
nóvember 2003 / febrúar 2004 / apríl 2004 / október 2004 / nóvember 2004 / desember 2004 / janúar 2005 / febrúar 2005 / mars 2005 / apríl 2005 / maí 2005 / október 2005 / nóvember 2005 / janúar 2006 / febrúar 2006 / maí 2006 / júní 2006 / október 2006 / nóvember 2006 / janúar 2007 / mars 2007 /

rgrss
Karfa
KKÍ
KKDÍ
Danskir dómarar
Dönsk úrslit
Danska sambandið
Norsk karfa
Sænsk karfa
Dönsk fréttasíða - danskbasket
Åbyhøj - gott spjall
Bloggarar
Ástrós Hind
María Valgarðsdóttir
Søs
Óskar
Ragnar Frosti Frostason
Stavnsvej 130
Arnar Freyr
Fanney frænka
Hulda María Doddadóttir
Gunni Freyr
Snorri Sturluson
Guðný Ebba
Mæja Páls
Mersol
Sundlararnir
Hugi Halldórsson
Stefán Arnar Ómarsson
KörfuBloggarar
Gía
Hildur Sig
Snorri Örn
Pálmar Fjölni
Helena Sverris
María Ben
Óli Þóris
Rakel Viggós
Raggi risi
Guðni dómari
Konni dómari
Pavel Ermo
Helgi Magg
Snæfellsgengið
Bjarki Gústafs
Fréttir og fleira
RÚV
Mogginn
Fréttablaðið
sport.is
fotbolti.net
skagafjordur.com
Hekla
B2
Personal
Bankinn - KB banki
Bankinn - NK
Bankinn - DB
Íslenskt útvarp
Dönsk símaskrá
Leikirnir mínir í DK
Orðabók
Skafirskir bloggarar
Óskar Sigurðsson
Arnar Freyr Frostason
Guðný Ebba Þórarinsdóttir
Helga María Pálsdóttir
Kolbrún Pálsdóttir
Björn Ingi Óskarsson, Stefán Friðriksson og Þráinn Vigfússon
Hugi Halldórsson
Brynjar Rögnvaldsson
Magnús Freyr Gíslason
Freyr Rögnvaldsson
Atli Gunnar Arnórsson
Hrafnhildur Viðarsdóttir
Arndís Berndsen
Davíð Rúnarsson
Ragnar Smári Helgason
Valgerður Bjarnadóttir
Arna Björg Bjarnadóttir
Silja Rut
Sindri Rögnvaldsson
Steinunn Rögnvaldsdóttir
Fanney Björk Frostadóttir
Una Bjarnadóttir
Björn Margeirsson
Ragnar Frosti Frostason
Ólafur Margeirsson
Stefán Arnar Ómarsson
Hulda María Frostadóttir
Hákon Frosti Pálmason
Kolbeinn Gíslason
Árni Páll Gíslason
Ragnar Már Magnússon
Laugabörn
Ástrós Hind Rúnars Gíslasonar
Áki Hlynur Andra Árnasonar
María Björt Berglindar Árnadóttur
Daníel Freyr Sveins Auðuns Sveinssonar
Daníel og Gabríel Öldu Eir Helgadóttur
Katrín Anna og Lísbet Eva Önnu Dísar Jónsdóttur
Antoníus Bjarki Önnu Dísar Jónsdóttur
Kamilla Huld Bjarneyjar Jónsdóttur
Enóla Ósk Lilju Daggar Vilbergsdóttur
Einar Vilberg Lilju Daggar Vilbergsdóttur
Júlíus Freyr Lilju Daggar Vilbergsdóttur